top of page

Stærð er hugarástand!


Ótrúlegt hversu gildishlaðin þessi setning er. Hugarfarið er nefnilega okkar mesta verðmæti, en um leið okkar stærsti þröskuldur. Aðeins lítill hluti fólks lítur á sjálfan sig sem eithvað stórkostlegt og alltof margir ganga í gegnum lífið með ríkari sýn á sínn vanmátt í stað þess að sjá eigin styrkleika.

Hvað hafa svo þessir aðilar sem virðast ná lengra í lífinu, afkasta meiru og virðast einhvern vegin stærri en við hin. Þetta er eins og Dr. Phil sagði í sínum sjónvarpsþætti „faðir minn sagðist aldrei vera stolltur af mér, en ég brosi og lít í speginn á hverjum morgni og segi við sjálfan mig – ég er stoltur af mér“. Síðan bætti hann við „ég safna líka í kringum mig fólki sem er bæði stolt af sjálfum sér og aðsjálfsögðu mér líka“.

Þetta er nefnilega aðalatriðið. Setja sín eigin viðmið, vita hvað maður er og fyrir hvað maður stendur. Ég þekki þetta mjög vel, því ég eyddi stórum hluta æfinnar í að hlusta á aðra mæla mig og meta. Stundum fannst mér umsagnir annarra meiða mig og ég gat verið lengi þungur og niðurdreginn við að hugsa um slík ummæli. Ég virkaði örugglega með mikið sjálfstraust, en á bak við var oft brotinn aðili með brostnar vonir.

Ég var svo heppinn fyrir nokkrum árum að kynnast markþjálfun og læra í gegnum hana að öðlast heilbrigt sjálfstraust og eðlilega sýn á sjálfan mig. Í framhaldinu kynntist ég líka hugmyndafræði Gordon Training International í samskiptafærni og fór í gegnum fjögurra stiga vottun hjá þeim til að fá réttindi sem leiðbeinandi.

Í dag er ég ekki eins viðkvæmur fyrir gagnrýni og athugasemdum og lít meira á hana sem eithvað til að gera mig enn betri. Í dag hlusta ég vel á fólk sem er að gera athugasemdir við mig og spyr síðan sjálfan mig hvort það þjóni einhverjum tilgangi að svara. Í flestum tilfellum er matið þannig að betra sé að svara ekki, en íhuga samt vel það sem sagt var og met hvort ég geti notað eithvað af því til að bæta mig.

Í dag er tel ég mig vera miklu stærri persónu að eigin mati og hef mjög heilbrigða sýn á sjálfan mig. Sjálfstraustið er betra og er líka byggt á mínum eigin forsendum og viðmiðunum. Ég stjórna mínum tilfinningar betur við erfiðar aðstæður og hef lært að dvelja ekki tilfinningalega nema nokkrar mínútur í eftirstöðvum af erfiðum samskiptum. Til gamans má geta þess að ég lendi mjög sjaldan í því sem ég kalla erfiðar aðstæður.

Stundum kalla ég þetta að hafa náð jafnvægi. Ég virðist hafa náð að klippa af þær miklu tilfinningalegu sveiflur sem oft voru hjá mér. Einnig tjái ég mig í dag betur á hreinskilinn hátt og án þess að gera það í reiði. Reiðin er eithvað sem mér hefur tekist að beisla og hef ekki verið reiður í langan tíma.

Þess vegna finnst mér ég vera miklu stærri persóna í dag, en ég var áður. Hvað hefur svo raunverulega breyst? Ég er ennþá sami aðilinn, en hef stækkað mig með því að byggja upp betri tilfinningastjórnun og heilbrigðara sjálfstraust. Ég stækkaði í huganum!


bottom of page